Málefnin

BUGL_Táknmynd.png

BUGL

Á barna- og unglingageðdeild Landspítala, BUGL, er þjónusta við börn og unglinga með geðraskanir. Starfsemin skiptist í göngudeild og legudeild og er tekið á móti börnum og unglingum upp að 18 ára aldri sem eiga við geðheilsuvanda að stríða. Veitt er sérhæfð þverfagleg þjónusta sem tekur mið af þörfum barna og fjölskyldna þeirra og náin samvinna er við þá sem annast frumgreiningu s.s. heilsugæslu og félagsþjónustu auk annars fagfólks sem sinnir barni og fjölskyldu í nærumhverfi. Börnin og unglingarnir eru alls staðar að af landinu.  Áhersla er lögð á alúð í samskiptum og gott samstarf við foreldra og aðra forráðamenn.

Bráðaþjónusta er veitt á göngudeild BUGL. Þar er bráðateymi sem tekur á móti símtölum og metur hvort mál krefjist tafarlausrar íhlutunar. Sé svo fer fram bráðamat í

göngudeild þar sem málinu er komið í viðeigandi farveg og tekin afstaða til þess hvort þörf sé fyrir bráðainnlögn á legudeild BUGL. Á legudeildinni geta að hámarki dvalið 17 börn. Meðan börn á skólaskyldualdri eru þar sækja þau annað hvort sinn heimaskóla eða stunda nám í Brúarskóla sem er á lóð BUGL. 

Nánari upplýsingar á vef BUGL: www.landspitali.is/bugl

BH_logo.png

Barnaspítali Hringsins

Á Barnaspítala Hringsins er veitt fjölbreytt þjónusta við börn og unglinga að 18 ára aldri. Þverfagleg teymi skipuð læknum, hjúkrunarfræðingum og öðru heilbrigðisstarfsfólki sinna skjólstæðingum ýmissa sérsviða. Sértæk þjónusta er m.a. við börn með sykursýki, krabbamein, hjartasjúkdóma, taugasjúkdóma, svefnvandamál, nýrnasjúkdóma, meltingarfærasjúkdóma, ofnæmissjúkdóma og ónæmissjúkdóma.

Á Barnaspítala Hringsins er legudeild, göngudeild, dagdeild, vökudeild og bráðamóttaka. Vökudeild er gjörgæsla fyrir nýbura og fyrirbura.  Flest barnanna koma beint eftir fæðingu og þar er bráðaþjónusta allan sólarhringinn allt árið.  Á bráðamóttöku barna koma börn með bráð veikindi, oftast frá heimilislækni eða sérfræðingi.  Þar er opið allan sólarhringinn. Á göngudeild er þjónusta við börn sem eru á Barnaspítala Hringsins og önnur sem þangað er vísað, greining sjúkdóma, meðferð og eftirlit. Á dagdeildina koma börn í rannsóknir, minni aðgerðir eða til meðferðar sem ekki krefst þess að dvelja þurfi næturlangt á spítalanum.

Á Barnaspítala Hringsins er röntgenstofa og á spítalanum er í boði þjónusta sjúkraþjálfara, félagsráðgjafa og prests. Í húsinu er kapella þar sem foreldrar, skjólstæðingar og starfsfólk getur notið samvista og kyrrðar. Góð aðstaða er fyrir foreldra að vera með börnum sínum á spítalanum.

Öll börn sem dvelja á Barnaspítala Hringsins geta verið í leikstofu og skóla og notið þjónustu leikskólakennara og kennara í skapandi og vel búnu umhverfi.

Nánari upplýsingar um Barnaspítala Hringsins á www.landspitali.is

eblogo.png

Einstök börn

Einstök börn er stuðningsfélag barna og ungmenna með sjaldgæfa, jafnvel ógreinda sjúkdóma eða skerðingar. Félagið var stofnað 13. mars 1997 af foreldrum nokkurra barna en nú hefur félagið stækkað ört og eru rúmlega 200 fjölskyldur í félaginu.

Ástæðan fyrir stofnun félagsins var sú að ákveðin börn í samfélaginu áttu ekki heima í neinum öðrum félagasamtökum og töldu þeir foreldrar sem hófu starfsemi Einstakra barna að þar gætu þau fundið sameiginlegan vettvang til að deila reynslu og vinna að bættum hag barna sinna.

Þeir sjúkdómar og skerðingar sem börn og ungmenni félagsins lifa með eru allir langvinnir og hafa varanleg áhrif á líf þeirra og fjölskyldur.  Þar sem um sjaldgæfa sjúkdóma er að ræða hafa margir þeirra lítið verið rannsakaðir og í fæstum tilfellum er til eignleg meðferð við þeim.  Allir sjúkdómarnir eru alvarlegir og hafa sumir áhrif á lífslíkur og lífsgæði.  Sumir sjúkdómarnir eru það sjaldgæfir að aðeins örfá tilfelli eru til í heiminum.  Nokkur börn í félaginu eru með enn sjaldgæfari sjúkdóma og hafa ekki fengið neina staðfesta sjúkdómsgreiningu þrátt fyrir ítarlega leit.

Sjá nánar á vef Einstakra barna: www.einstokborn.is

logolif4.gif

Líf styrktarfélag

Líf styrktarfélag kvennadeildar Landspítalans hefur þann tilgang að bæta aðbúnað og þjónustu við konur og fjölskyldur þeirra á meðgöngu, í fæðingu og sængurlegu sem og kvenna sem þurfa umönnun vegna kvensjúkdóma. Félagið vinnur að líknar- og mannúðarmálum í þágu fjölskyldna. Líf er stofnað með langtímaverkefni í huga og það mun afla fjár með félagsgjöldum sem greidd verða ár hvert og einnig standa að margvíslegum fjáröflunum. Að félaginu standa núverandi og fyrrverandi starfsmenn kvennadeildar ásamt breiðum hópi fólks víðsvegar úr þjóðfélaginu.Þó skírskotun sé augljós til kvenna vegna kvennadeildar leggjum við áherslu á að félagið er fyrir karla og konur enda njóta karlar einnig þjónustu kvennadeildar þar sem börn þeirra fæðast og margir dvelja einnig hjá okkur á meðan fæðingu/sængurlegu stendur.
Við hvetjum alla sem vilja leggja þessu máli lið til að gerast félagar í Líf.

Sjá nánar á vef Líf: www.gefdulif.is

kraftur_logo.jpg

Stuðningsfélagið Kraftur

Stuðningsfélagið Kraftur var stofnað þann 1. október árið 1999 með það að leiðarljósi að beita sameinuðum kröftum sínum til að styðja við bakið á ungu fólki sem greinst hefur með krabbamein og aðstandendum þess. Félagið er fyrir ungt fólk, sem greinst hefur með krabbamein, á aldrinum 18 – 40 ára en þar sem það er einnig fyrir aðstanendur er fólk á öllum aldri í félaginu. Starfsemi Krafts felst m.a. í því að:

  • - Halda úti öflugu stuðningsneti fyrir krabbameinsgreinda og aðstandendur þeirra þar sem lögð er áhersla á jafningjastuðning byggðan á persónulegri reynslu
  • - Veita andlegan stuðning og ráðgjöf
  • - Veita félagsmönnum sálfræðiþjónustu
  • - Veita styrki úr Neyðarsjóði Krafts
  • - Gæta hagsmuna félagsmanna og standa vörð um réttindi þeirra gagnvart opinberum ailum
  • - Bjóða uppá endurhæfingu í formi hreyfingar og útivistar fyrir ungt fólk með krabbamein
  • - Halda reglulega viðburði, s.s. sumargrill, aðventukvöld og málþing
  • - Standa að útgáfu á fréttabréfi og fræðslu um krabbamein af ýmsum toga
  • - Halda úti heimasíðu með helstu upplýsingum

Sjá nánar á vef Krafts: kraftur.org

SKBlogo.png

SKB - Styrktarfélag krabbameinssjúkra barna

Tilgangur Styrktarfélags krabbameinssjúkra barna er að styðja krabbameinssjúk börn og aðstandendur þeirra og gæta hagsmuna þeirra á öllum sviðum. Árlega greinast 10-12 börn með krabbamein á Íslandi. SKB sinnir auk þess fræðslu- og útgáfustarfsemi um sérstöðu og þarfir krabbameinsveikra barna og fjölskyldna þeirra og um síðbúnar afleiðingar eftir krabbameinsmeðferð. Félagið hefur einnig stutt starfsfólk Barnaspítala Hringsins til að efla sig faglega með þátttöku á ráðstefnum, námskeiðum og fundum utan- og innanlands. SKB nýtur ekki beinna opinberra styrkja og er rekið fyrir sjálfsafla- og gjafafé.

Sjá nánar á vef: www.skb.is

msfelagid.png

MS Félag Íslands

MS-félag Íslands er hagsmunafélag fólks með MS-greiningu.MS er langvinnur bólgusjúkdómur í heila og mænu þar sem skilaboð um hreyfingu, tal eða hugsun truflast og ná illa eða ekki fram til viðeigandi líkamshluta og einkenni sjúkdómsins koma fram.Einkenni MS eru mjög einstaklingsbundin og geta ýmist verið tímabundin eða varanleg. MS er einn algengasti taugasjúkdómur ungs fólks en flestir greinast á aldrinum 20-40 ára. MS er hvorki smitandi né arfgengur sjúkdómur og hefur ekki mikil áhrif á lífslíkur. Sjúkdómurinn er enn ólæknandi en nokkur lyf sem tefja framgang hans eru nú í notkun og fleiri eru í þróun.

Sjá nánar á vef MS félags íslands: www.msfelag.is

gedhjalp.jpg

Geðhjálp

Geðhjálp eru samtök hátt í 1.400 félaga, notenda, aðstandenda, fagfólks og áhugafólks um bættan hag fólks með geðraskanir og geðfötlun í samfélaginu. Samtökin vinna að því að bæta þjónustu, verja réttindi og vinna gegn fordómum með hagsmunagæslu, ráðgjöf, upplýsinga og þekkingarmiðlun. Geðhjálp beitir sér í þágu fólks með geðraskanir og geðfötlun í opinberri umræðu. Jafnframt hefur félagið lagt ríka áherslu á að raddir einstakra notenda heyrist í fjölmiðlum. Markmiðið með þátttöku í opinberri umræðu er m.a. að vinna gegn fordómum gagnvart fólki með geðraskanir og geðfötlun. Ekki veitir af því að þessi hópur verður fyrir hvað mestum fordómum í samfélaginu af einstökum hópum fatlaðra og ófatlaðra. Öryrkjar á grundvelli geðraskana eru ríflega 38% öryrkja eða ríflega 6.400 manns.

Sjá nánar á vef Geðhjálpar: www.geðhjalp.is